Fulltrúar í kjörstjórn Snæfellsbæjar í Staðarsveit tóku starf sitt það alvarlega og samviskusamlega í kosningunum á laugardag, að eftir að hafa gengið frá öllum kjörgögnum og innsiglað kjörkassann kirfilega uppgötvuðu þeir þremenningar, sér til skelfingar, þeir höfðu gleymt að kjósa sjálfir þá um daginn.
Voru þeir komnir heim til sín að störfum loknum, um níuleytið á laugardagskvöld, og urðu að bruna yfir Fróðárheiðina til Ólafsvíkur að kjósa. Það rétt hafðist fimm mínútum áður en kjörstað var lokað þar.
„Þegar þetta uppgötvaðist stóð valið um það að láta sem ekkert væri, eða axla okkar ábyrgð og játa mistökin. Við ákváðum seinni kostinn og boðuðum komu okkar til Ólafsvíkur til að fá að kjósa. Við hringdum meira að segja til að kjörstjórnin þar yrði örugglega búin að jafna sig á hlátursköstunum þegar við kæmum,“ segir Bjarni Einarsson á Tröðum, einn kjörstjórnarmanna í Staðarsveit, sem var ein af þremur kjördeildum í Snæfellsbæ.
Með honum í kjörstjórninni voru Bjarni Vigfússon á Kálfárvöllum og Guðmundur Sigurmonsson á Grenhólum. Kjörstaður í Staðarsveit var opinn frá kl. 11 til 20, kjörsókn var með ágætum þar sem um 90 atkvæði skiluðu sér af 110 á kjörskrá. Er kjörstjórnin þá ekki talin með! Þau atkvæði bættust við síðar, en rétt innan leyfilegra tímamarka sem fyrr segir.