Fjöldi kjósenda sem strikaði yfir nafn Össurar Skarphéðinssonar, utanríkis- og iðnaðarráðherra og oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, var slíkur að fáa tugi útstrikana vantaði upp á að hann færðist niður um eitt sæti. Össur var nær því að færast til á framboðslistanum vegna útstrikana en Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem skipaði fjórða sæti Samfylkingar í Reykjavík norður.
Alls strikuðu 1.284 kjósendur Reykjavíkurkjördæmis suður yfir nafn eða breyttu röð oddvitans, Össurar Skarphéðinssonar eða rétt um 11% þeirra sem kusu listann.
Samfylkingin í Reykjavík suður fékk fjóra þingmenn kjörna. Samkvæmt reiknireglum hefðu a.m.k. 11,1% kjósenda listans í kjördæminu þurft að strika yfir nafn oddvitans til að hann færðist niður um sæti. Þá er ekki tekið tillit til breytinga eða útstrikana hjá öðrum frambjóðendum.
Á það ber þó að líta að sú sem skipaði annað sæti listans í kjördæminu, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fékk aðeins 53 útstrikanir eða breytingar og því hefðu þær ekki vegið þungt í þessu sambandi.
Fjöldi þingmanna og sætaröð ræður
Áhrif útstrikana og breytinga á röð frambjóðenda ráðast annars vegar af fjölda þingmanna sem flokkur fær kjörinn í hverju kjördæmi og hins vegar af því í hvaða sæti sá frambjóðandi er, sem breytingar beinast að.
Eigi útstrikanir að hafa áhrif á oddvita lista sem einungis fær einn mann kjörinn þarf hlutfall útstrikana að vera 25% hið minnsta. Ef flokkur fær hins vegar 3 menn kjörna þarf hlutfall útstrikana hjá oddvita aðeins að vera 14,3%.
Þriðjungur hefði þurft að strika yfir nafn Kolbrúnar
Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra skipaði þriðja sætið á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi suður. 1.990 kjósendur VG strikuðu yfir nafn hennar eða breyttu röð. Þetta lætur nærri að vera 24,5% en engu að síður heldur Kolbrún þriðja sætinu.
Það skýrist af því að VG fékk tvo menn kjörna í Reykjavík suður og því hefðu útstrikanir Kolbrúnar þurft að vera 33% að minnsta kosti til að hafa áhrif á sætaröð og er þá ekki tekið tillit til breytinga eða útstrikana annarra frambjóðenda á lista VG.
Steinunn fjarri því að færast niður
Sama er að segja um Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, sem skipaði fjórða sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. 1.443 kjósendur strikuðu yfir nafn hennar eða breyttu röð eða rúmlega 12% þeirra sem kusu Samfylkinguna í kjördæminu.
Samfylkingin fékk 4 menn kjörna í Reykjavík norður og þar sem Steinunn Valdís skipaði fjórða sæti listans hefðu 17% kjósenda eða þar um bil, þurft að strika hana út. Líkt og áður er ekki tekið tillit til breytinga eða útstrikana annarra frambjóðenda á lista Samfylkingar en bæði Helgi Hjörvar, sem skipaði þriðja sætið og Mörður Árnason, sem skipaði fimmta sætið, fengu umtalsvert margar útstrikanir, sem vega upp á móti útstrikunum Steinunnar Valdísar.
25% hefðu þurft að strika Þráin út
Líkt og fram kom á mbl.is í gær, strikuðu 300 kjósendur Borgarahreyfingarinnar í Reykjavík norður, yfir nafn oddvitans, Þráins Bertelssonar. Þar sem flokkurinn fékk aðeins einn mann kjörinn í kjördæminu, skiptu þær útstrikanir litlu. 25% kjósenda Borgarahreyfingarinnar í kjördæminu eða ríflega þrefalt fleiri, hefðu þurft að strika yfir nafn Þráins, svo það hefði hugsanlega breytt sætaskipan.