„Þetta eru enn fuglar í skógi, sýnist mér,“ segir Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri Borgarahreyfingarinnar. Samkvæmt útreikningum Morgunblaðsins fær hreyfingin um 27,5 milljónir um áramótin, verði upphæðin til skiptanna milli stjórnmálaflokkanna sú sama og um síðustu áramót.
Hreyfingin fær einnig um 2,5 milljónir á þessu ári af fjárlögum þingsins, greitt í tveimur greiðslum á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Hún fær greiðslur út kjörtímabilið, sem ákveðnar eru í fjárlögum hverju sinni.
Jóhann segir peningana koma sér vel fyrir hreyfinguna. Hún standi skuldlaus eftir kosningabaráttuna sem hafi kostað innan við tvær milljónir
„Við eigum þá þennan pening til ráðstöfunar. En það sem er fyrirliggjandi núna er að við þurfum að finna okkur skrifstofuhúsnæði til að halda utan um baklandið,“ segir hann. „Þá gaf fólk sem vann að hreyfingunni vinnuna sína. Það getur það ekki endalaust,“ segir hann og býst því við að hugsanlega verði nú hægt að greiða því fólki laun.