Kjartan Ólafsson, sem var í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir að Árni Johnsen fari með fleipur ef hann haldi því fram að Kjartan hafi unnið gegn sér i aðdraganda kosningana.
Árni segir í viðtali við Fréttir í Eyjum að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins af Árborgarsvæðinu hafi hvatt kjósendur til að strika yfir nafn sitt í kosningunum. Árni nafngreinir ekki frambjóðendurna en segir hins vegar að markviss vinna gegn sér af hendi félaga hans á framboðslistanum og í flokknum hafi valdið því að 17% kjósendu strikuðu yfir nafn hans.
„Hvað mig varðar eru þessar ásakanir algjör fjarstæða. Svona myndi ég aldrei vinna og ég veit ekki hvað Árna gengur til með þessu. Ástæðna þess að hann fékk margar útstrikanir er líklega bara að leita hjá honum sjálfum og því gæfulegast fyrir hann að finna skýringar þar,“ segir Kjartan Ólafsson við fréttavefinn Sunnlending.is.
Árni nafngreinir ekki þá frambjóðendur af Árborgarsvæðinu sem hann segir hafa unnið gegn sér en fjórir af 20 frambjóðendum listans eru af Árborgarsvæðinu, þau Ari Björn Thorarensen, Unnur Þormóðsdóttir og Hólmfríður E. Kjartansdóttir auk Kjartans.