Vill vinna traust á ný

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég hef haft það fyrir reglu að líta gagnrýnið á störf mín og þegar kjósendur tjá vilja sinn með þessum hætti þá fer maður yfir það mál,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Reykjavíkurkjördæmi Suður sem færist niður úr oddvitasæti flokksins í kjördæminu í annað sæti vegna útstrikana.

Guðlaugur segir umdeildar niðurskurðaraðgerðir sínar sem heilbrigðisráðherra vafalaust vera þátt í því hversu margir hafi valið að strika hann út af listanum. Auk þess hafi umræðan í kringum styrkjamál flokkanna eflaust haft sín áhrif.  

„Það er lýðræðislegur réttur kjósenda að strika út frambjóðanda og það hefur augljóslega verið gert nokkuð mikið í þessum kosningum. Það er lítið við því að segja eða gera en að fara út í það verkefni að vinna aftur traust kjósenda,“ segir Guðlaugur.

Aðspurður um hvort hann telji stöðu sína innan þingflokks Sjálfstæðisflokks eða Sjálfstæðisflokksins breytta segist Guðlaugur ekki telja að svo sé. Hann hafi fundið fyrir miklum stuðningi meðal Sjálfstæðismanna í orrahríð síðustu mánaða. Hann hafi fengið góða kosningu í prófkjöri flokksins og að það sé skylda sín að vinna fyrir Reykvíkinga og landsmenn alla á þinginu.

Guðlaugur fékk 1.933 útstrikanir í nýafstöðnum kosningum eða 23,55% og verður það til þess að Ólöf Nordal verður oddviti flokksins í kjördæminu. Aðrar breytingar verða ekki á listum í kjördæminu vegna útstrikana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert