Flestir kjósendur segjast byggja val sitt á stjórnmálaflokki á málefnum en einnig skiptir miklu máli traust eða trúverðugleiki stjórnmálaflokkanna. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup.
Um 48% kjósenda sögðust byggja val sitt á málefnum en ríflega 40% sögðu hins vegar að traust eða trúverðugleiki stjórnmálaflokka réði mestu um val þeirra á flokki. Rúm 9% sögðu forystumenn skipta mestu við val þeirra á flokki.
Málefni skipta háskólamenntaða meira máli en þá sem eru minna menntaðir. Hlutfall þeirra sem segja traust og trúverðugleika skipta þá mestu máli við val á flokki er hæst á meðal kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs en hlutfall þeirra sem segja að málefni skipti þá mestu máli er hæst á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins.