Kikna undan skuldum

Svanberg Hjelm
Svanberg Hjelm vf.is/Hilmar Bragi

„Frá og með þessum mánaðamótum er ég atvinnulaus. Ég hef haldið mér á floti fram að þessu en 1. maí fékk ég síðustu launin mín og þau voru ekki beysin fyrir. Þannig að það er allt á niðurleið og ég er löngu byrjaður á þessum mótmælum að greiða ekki,“ segir Svanberg Hjelm atvinnubílstjóri.

Svanberg býr ásamt eiginkonu sinni í Innri-Njarðvík með sex börn í heimili. Þau hjónin borga af húsnæðisláni auk tveggja bílalána. Líkt og svo margra Íslendinga er fjárhagsstaða þeirra nú afar erfið og Svanberg er í ört stækkandi hópi þeirra sem sjá sér þann kost vænstan að hætta að borga af lánum sínum.

„Ég hef verið að reyna að semja um það sem ég er eftir á með en ég hef alltaf gengið á vegg,“ segir Svanberg. „Ég lifi bara á frestum og þökk sé nýju lögunum þá er ég ekki settur á uppboð fyrr en í haust.“ Hann segist ósáttur við þau svör viðskiptaráðherra að flestir eigi að geta staðið í skilum og venjulegt launafólk sé ekki svo illa statt.

„Hvernig getur fólk staðið í skilum sem hefur ekki vinnu? Ég meina, guð minn góður, hvernig á ég að borga yfir 130 þúsund af fasteigninni, yfir 100 þúsund í bílalán og fæða sex börn á atvinnuleysisbótum? Bílarnir eru verðlausir í dag, þótt ég myndi skila þeim þyrfti ég að borga allt að milljón með þeim.

Íbúðin er verðlaus, hún var tekin á 100% láni og góðum loforðum og ég sá ekkert nema stjörnur miðað við hvernig dæmið var sett upp fyrir mér. Þetta átti að vera eins auðvelt og hægt var, ég fór í gegnum greiðslumat á þáverandi launum og það var ekkert mál. Nú á sömu launum á ég varla til hnífs og skeiðar.“

Þrír möguleikar eru í stöðunni að mati Svanbergs. „Númer eitt að við förum úr landi. Númer tvö að það verði kraftaverk eða númer þrjú – og það er það sem enginn vill tala um – að þessi fjölskylda liðist í sundur.“

Spurður hvort hann óttist ekki afleiðingarnar af því að hætta að borga svarar Svanberg: „Ég reyni að tryggja það eftir bestu getu að það bitni ekki á tengdaforeldrunum. Að öðru leyti er mér slétt sama.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert