Málefnahópur VG vill lækka höfuðstól lána

Húsnæðislán eru mörgum þungur baggi um þessar mundir.
Húsnæðislán eru mörgum þungur baggi um þessar mundir.

Málefnahópur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um efnahagsmál, sem starfað hefur frá landsfundi flokksins, leggur til að leiðréttur verði vaxta og verðbótaþáttur húsnæðisveðlána og að gengistryggð lán verði umreiknuð yfir í íslenskar krónur. Málefnahópurinn vísar til þess að það hafi verið og sé enn yfirlýstur vilji landsfundar VG að leita leiða til að lækka höfuðstól lána.

Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í mars var mikið rætt um skuldvanda heimila og fyrirtækja í landinu og ýmsar hugmyndir viðraðar honum til lausnar. Á fundinum náðist þó ekki að fullmóta tillögur þar að lútandi. Samkomulag varð um að málefnahópur um efnahagsmál héldi áfram störfum og hefur hann nú skilað af sér tillögu ásamt rökstuðningi til forystu VG.

Markmið tillögu málefnahópsins er einkum að leiðrétta með almennum aðgerðum stöðu þeirra sem verst hafa orðið úti í fasteignaviðskiptum á undanförnum árum. Í tillögunni segir að hreyfingin muni beita sér fyrir slíkum aðgerðum með víðtæku samráði allra þeirra sem hlut eiga að lánamálum heimila og fyrirtækja í landinu.

Lánveitingar bankanna til fasteignakaupa með allt að 100% veðhlutfalli og nánast óheftu aðgengi að lánsfé, hafi leitt til óraunhæfrar hækkunar fasteignaverðs, sem mætt var með síhækkandi lánum. Fall bankanna og efnahagshrunið samfara því hafi síðan aftur orsakað verðfall fasteigna, þannig að raunvirði þeirra sé í miklum fjölda tilfella orðið mun lægra en áhvílandi skuldir.

Málefnahópurinn leggur til að VG muni því beita sér fyrir því að þau lán sem hærri eru en sem nemur raunvirði eigna, verði færð niður sem því nemur. Þá verði leiðréttur vaxta og verðbótaþáttur húsnæðisveðlána og gengistryggð lán verði umreiknuð yfir í krónur.

Í niðurlagi stefnuyfirlýsingar málefnahóps VG um efnahagsmál segir; „Vinstri hreyfingin grænt framboð gerir sér fulla grein fyrir að framreikningur umræddra  lána eftir efnahagshrunið er óraunhæfur og þarfnast leiðréttingar. Það er staðfastur vilji og stefna hreyfingarinnar að vinna þar að farsælli lausn.“

Tillagan hefur verið send forystu VG og hyggst hópurinn kynna efni tillögunnar frekar á blaðamannafundi síðar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert