Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar

Formenn VG og Samfylkingar kynna sáttmála um nýja stjórn.
Formenn VG og Samfylkingar kynna sáttmála um nýja stjórn. mbl.is/Árni Sæberg

Í samstarfssáttmála Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs segir, að ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem muni greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum.

Þar kemur einnig fram, að utanríkisráðherra muni á vorþingi leggja fram þingsályktunartillögu um að aðildarviðræður verði hafnar að Evrópusambandinu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að þetta ákvæði hefði reynst mörgum flokksmönnum erfitt að samþykkja. Hann lagði hins vegar áherslu á, að flokkurinn hefði ekki í neinu hvikað frá þeirri stefnu sinni að vera andvígur aðild að Evrópusambandinu. Tók Steingrímur fram, að í atkvæðagreiðslu um tillöguna muni þingmenn fylgja sannfæringu sinni.´

Í stjórnarsáttmálanum segir, að flokkarnir áskilji sér rétt til að halda fast í sín sjónarmið í þeirri umræðu sem fram fer um Evrópusambandið innan þings og utan.

Ríkisstjórnin er í sáttmálanum sögð mynduð um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar, nýjan stöðugleikasáttmála.

Þá segir,  að stjórnin sé mynduð á grundvelli góðs samstarfs flokkanna í fráfarandi ríkisstjórn. Á 80 dögum hafi verið lagður grunnur að því, að hægt verði að snúa vörn í sókn á flestum sviðum, þrátt fyrir gríðarlega erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi og alþjóðlegu efnahagslífi. 

Með sáttmálanum fylgir 100 daga áætlun um hvernig eigi að framfylgja þeim aðgerðum, sem sáttmálinn kveður á um.

Stjórnarsáttmálinn var samþykktur samhljóða á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Steingrímur sagði, að að flokksstjórnarfundi VG hefði sáttmálinn verið samþykktur með öllum atkvæðum gegn 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka