Aukin tekjuöflun könnuð

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs segir m.a., að kannaðir verði kostir til aukinnar tekjuöflunar ríkissjóðs í samráði við hagsmunaaðila og með hliðsjón af reynslu þeirra landa sem glímt hafa við svipaða erfiðleika.

„Lykilatriði er að aukin skattheimta leggist frekar á þá sem betur eru í stakk búnir til að bera auknar byrðar en verði þó ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem framundan eru. Áfram verði unnið markvisst að því starfi sem hófst með samstarfi stjórnarflokkanna að koma í veg fyrir skattaundandrátt," segir í sáttmálanum.

Þá segir, að gripið verði strax til fyrstu aðgerða í ríkisfjármálum. Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar á sviði ríkisfjármála verði jafnframt gerð áætlunar um stefnu í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Sú áætlun marki útlínur þess verkefnis sem framundan er, jafnt í lækkun ríkisútgjalda og aukinni tekjuöflun. Miðað sé við að jafnvægi náist í ríkisfjármálin eigi síðar en 2013.

„Í áætluninni verður þess gætt að vernda mikilvæga þætti félagslegrar þjónustu og stefnt er að því að á áætlunartímabilinu verði frumgjöld ríkissjóðs, þ.e. útgjöld án vaxtagjalda, ekki hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en verið hefur á undanförnum árum þrátt fyrir mikinn samdrátt landsframleiðslunnar. Gert verði ráð fyrir að skattbyrðin verði svipuð eða lægri á áætlunartímabilinu en hún hefur verið á síðustu árum og verði í skrefum aðlöguð útgjaldastigi ríkissjóðs. Áætlun um jafnvægi í ríkisfjármálum verði kynnt opinberlega í sumarbyrjun og þá rædd m.a. við aðila vinnumarkaðarins," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka