Flokksráð VG þingar

Frá fundi flokksráðs VG í morgun
Frá fundi flokksráðs VG í morgun mbl.is/Árni Sæberg

Fundur flokksráðsfundar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hófst á Grand Hótel nú klukkan níu til að ræða sáttmála nýrrar ríkisstjórn og skipan í ráðherraembætti.

Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tekur að óbreyttu við völdum síðdegis. Þá verður sáttmáli nýrrar stjórnar kynntur.

Meginstef stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar verður endurreisn íslensks samfélags, aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækja, endurreisn bankakerfis og uppbygging atvinnulífs.

Formenn stjórnarflokkanna ræddu við þingmenn í gær. Að loknum flokksráðsfundi VG er reiknað með þingflokksfundi.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hittist að líkindum í hádeginu en flokksstjórn er boðuð til fundar klukkan eitt.

Líklegt er að ráðuneytum fækki um eitt að minnsta kosti og liggur fyrir tillaga um atvinnuvegaráðuneyti, sem fari með verkefni sem nú eru hjá iðnaðar-, landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytum. Stærri uppstokkanir á stjórnskipan bíða að líkindum til áramóta.

Tveir nýir ráðherrar eru nefndir, þau Svandís Svavarsdóttir VG og Árni Páll Árnason, Samfylkingu.

Rætt er um að Alþingi verði kvatt saman eftir viku, annaðhvort föstudaginn 15 maí eða mánudaginn 18. maí. Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert