Ítrasta aðhalds gætt

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg.
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg.

Í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir m.a. að gætt verði ítrasta aðhalds í rekstri ríkisins, þóknanir fyrir nefndir verði lækkaðar eða lagðar af, hömlur verði settar á aðkeypta ráðgjafaþjónustu og sú stefna mörkuð að engin ríkislaun verði hærri en laun forsætisráðherra.

Settar verða samræmdar reglur allra ráðuneyta um niðurskurð á ferða-, risnu- og bifreiðakostnaði. Sjálfstæðum hlutafélögum í eigu ríkisins verða settar skýrar reglur um launastefnu og útgjaldastefnu í þessum anda.

Í yfirlýsingunni segir, að markmið ríkisstjórnarinnar sé að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum raunveruleika. Fyrri ráðstafanir í átt til markaðs- og einkavæðingar opinberra verkefna og þjónustu verði endurskoðaðar ef það getur leitt til minni kostnaðar.

Þá þurfi að fara yfir kostnað ríkissjóðs við ýmsa samninga sem gerðir hafa verið, t.d. vegna húsnæðismála ríkisins, og þeir endurmetnir í ljósi aðstæðna. Stefnt verði að því að útgjöld atvinnulífs og sveitarfélaga vegna eftirlits og ýmissa reglugerðaákvæða verði lækkuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert