Katrín tekin við iðnaðarráðuneytinu

Katrín Júlíusdóttir tók í kvöld við lyklavöldum í iðnaðarráðuneytinu af Össuri Skarphéðinssyni. Össur hefur gegnt embættum utanríkis- og iðnaðarráðherra frá byrjun febrúar. Hann situr áfram í utanríkisráðuneytinu.

„Þetta leggst vel í mig. Atvinnumálin verða gríðarlega stórt verkefni á þessu kjörtímabili og þarna er þungamiðja atvinnumálanna,“ sagði Katrín þegar ráðherraskipan hafði verið formlega kynnt í dag.

Katrín Júlíusdóttir er 35 ára, fædd 23. nóvember 1974. Hún lauk stúdentsprófi frá MK 1994, stundaði nám í mannfræði við Háskóla Íslands 1995-1999 og nam verkefnastjórn í hugbúnaðargerð hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 2001. Katrín tók sæti á Alþingi árið 2003.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert