Ný ríkisstjórn

Ríkisstjórnin ásamt forseta Íslands á Bessastöðum í kvöld.
Ríkisstjórnin ásamt forseta Íslands á Bessastöðum í kvöld. mbl.is/ÁrnI Sæberg

Annað ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, tók við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum nú undir kvöld. Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð mynda ríkisstjórnina sem í sitja tólf ráðherrar.

Fjórir ráðherrar eru nýir: Árni Páll Árnason, sem tekur við embætti félags- og tryggingamálaráðherra, Jón Bjarnason, sem verður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Katrín Júlíusdóttir, sem verður iðnaðarráðherra og Svandís  Svavarsdóttir, sem verður umhverfisráðherra.

Tveir ráðherrar létu af embættum í dag, þær Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem var félagsmálaráðherra en verður nú forseti Alþingis, og Kolbrún Halldórsdóttir, sem var umhverfisráðherra en náði ekki kjöri á þing.

Þau Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir, sem sátu í síðustu ríkisstjórn en eiga ekki sæti á Alþingi, munu gegna ráðherraembættum áfram í nýju stjórninni, Gylfi verður efnahagsmálaráðherra og Ragna verður dómsmálaráðherra.

Þeir ráðherrar, sem sitja áfram eru auk Jóhönnu þau Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra og Kristján L. Möller, samgönguráðherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert