Treystum á innviði míns ráðuneytis

Árni Páll Árnason, verðandi félags- og tryggingamálaráðherra.
Árni Páll Árnason, verðandi félags- og tryggingamálaráðherra.

„Þetta er mikið traust og fyrir það er ég þakklátur en tímarnir eru afskaplega erfiðir. Þetta hefur ávallt verið okkar fyrsti kostur í ríkisstjórn, að fá þetta ráðuneyti. Í því er aðalstoð velferðarkerfisins í landinu, við reiðum okkur á innviði þessa ráðuneytis til þess að tryggja þá almennu velferð sem er forsenda þess að við getum komist með boðlegum hætti út úr þessum erfiðleikum,“ segir Árni Páll Árnason, verðandi félags- og tryggingamálaráðherra.

Hann tekur við embættinu af Ástu R. Jóhannesdóttur sem gegnt hefur embættinu frá í febrúar en Ásta sest á stól forseta Alþingis.

Kreppan hefur aukið þrýsting á ráðuneyti félags- og tryggingamála. Þá verða verkefni færð frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis, meðal annars öldrunarmálin að öllu leyti. Það má því gera ráð fyrir að umfang verkefna félags- og tryggingamálaráðuneytisins aukist til muna.

„Á vettvangi þessa ráðuneytis verða líka fjölmörg mál sem lúta að skuldamálum fjölskyldna, að húsnæðismálum, velferðarmálum að öllu leyti. Það er fjöldi fólks sem á afkomu sína undir því millifærslukerfi sem ráðuneytið stendur vörð um. Þetta verður því mikið verkefni,“ segir Árni Páll.

Hann minnir á að gæta verði aðhalds og velta fyrir sér hverri krónu. Árni Páll segist taka við góðu búi af forverum sínum, þeim Ástu R. Jóhannesdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur.

„Það skiptir miklu máli að verja þann ávinning sem okkur hefur tekist að búa barnafjölskyldum og lífeyrisþegum, frá því að við komum í ríkisstjórn árið 2007. Síðan þurfum við að nýta öll tækifæri til að greiða sem flestum leið út úr þessum erfiðleikum sem framundan eru,“ segir Árni Páll Árnason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert