„Mér líst vel á upplegg ríkisstjórnarinnar og er vongóður um að fyrir miðjan júní verði hægt að koma í gegn ákvörðunum sem geta dugað til þess að keyra hér niður vexti eins hratt og frekast er unnt. Jafnframt að ákvarðanirnar leiði til þess að fyrirtækin hér fái þrótt og horfi til framtíðar með jákvæðari augum, uppsögnum linni og fyrirtækin geti farið að ráða til sín fólk á ný. Þá fagna ég því að nú er aðild að Evrópusambandinu loksins komin á dagskrá. ASÍ hefur lagt áherslu á það sem mikilvægan þátt í aðgerðaáætlun, þannig megi ná trúverðugleika inn á okkar fjármálamarkaði og í gegnum það, minnka þrýsting á krónuna,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Hann segir jákvætt að ríkisstjórnin taki upp það sem ASÍ, Samtök atvinnulífsins og sveitarfélögin voru að þróa á vinnumarkaðnum.
„Við vorum búin að leggja upp ákveðna ramma að stöðugleikasáttmála og ríkisstjórnin tekur það eiginlega orðrétt inn í sín plön. Hún tekur okkur svolítið á orðinu og það er ágætt. Vinnumarkaðurinn er klár að setjast að þessu verkefni. Þá finnst mér yfirbragðið á þessu vera svolítið upplegg að því að sameinast um að vinna okkur út úr vandanum. Það er mjög mikilvægt. Að sama skapi leggur ríkisstjórnin upp með plan, 100 daga áætlun, og ég held að það sé alveg rétt hugsun í því. Það er orðin löng bið eftir þessu og alveg vitað mál að það er komið að því að taka stórar ákvarðanir og keyra hlutina í lausnir.“
ASÍ hefur gagnrýnt ríkisstjórn VG og Samfylkingar harkalega fyrir aðgerðaleysi, of lítið haf verið gert í þágu illa staddra heimila og fyrirtækja og of seint. Gylfi segist mun jákvæðari í garð ríkisstjórnarinnar, nú þegar plöggin liggja fyrir og vill gefa ríkisstjórninni færi á að koma sér í gang. Hann segir hins vegar að grannt verði fylgst með.
„Það má að minnsta kosti segja að ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að það er mikil pressa á henni og löng bið eftir aðgerðum. Mér finnst uppleggið á þessari áætlun vera þannig að nú sé komið að því að bretta upp ermar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.
Hann fagnar því að kallað sé eftir auknu samráði við aðila vinnumarkaðarins í ákvarðanatöku um aðgerðir. Það sé enda mikilvægt, því mikill niðurskurður sé framundan og aukin skattheimta sé óhjákvæmileg.
„Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að það eru mjög erfiðir tímar framundan í að ná tökum á ríkisfjármálum og koma þessu gangverki atvinnulífsins í gang. Það verður ekki gert með hallarekstri ríkissjóðs sem þá sogar til sín allan sparnað í landinu. Það bíða erfiðar ákvarðanir og ég held að það sé mikilvægt að verkalýðshreyfingin komi að því máli. Það er líka mikilvægt að það myndist breið sátt um það hvað þurfi að verja og að deila þurfi byrðunum meira meðal þeirra sem betur mega sín. Það er ljóst að við munum hafa á því skoðun.“
Gylfi segir að aðgerðaplan varðandi skuldastöðu heimilanna sé mikilvægt og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, virðist hafa mjög einarða afstöðu í að taka af meiri festu og ákveðni á þeim málum.
„Bæði þannig að þegar teknar ákvarðanir komi til framkvæmda, til dæmis um greiðsluaðlögun, og eins að horft verði til skýrslu Seðlabankans, sem væntanleg er síðar í maí, um skuldastöðu heimilanna. Þar nefni ég sérstaklega unga fólkið sem keypti sína fyrstu íbúð fyrir einu til þremur árum meðan fasteignaverð var hér í hæstu hæðum. Verði ekki sérstaklega litið til þessa hóps er mikil hætta á að unga fólkið yfirgefi okkur og ég treysti Jóhönnu til að taka af mikilli ábyrgð á því máli.“