Fréttaskýring: Mikil þrautaganga framundan

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ómar

Eitt af meginverkefnum nýrrar ríkisstjórnar í efnahagsmálum er að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, að því er segir í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna.

Óhætt er að segja að þetta muni reynast krefjandi verkefni, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Gert er ráð fyrir 150 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs í ár og alvarleg skuldastaða hins opinbera þýðir að vaxtagjöld margfaldast á milli ára.

Í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabankans segir að nauðsynlegt sé til að grípa til aðgerða til að draga úr hallarekstri ríkissjóðs. Opinber fjármál megi ekki við frekari skuldasöfnun. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur einnig tekið í sama streng og sagt að nauðsynlegt sé að jafna stöðu ríkissjóðs svo vextir uppsafnaðra skulda beri ríkið ekki ofurliði.

Markmiðið er, samkvæmt yfirlýsingunni, tvíþætt. Annars vegar er stefnt að því að jafnvægi verði komið á rekstur ríkissjóðs fyrir árið 2013. Hins vegar að frumgjöld ríkissjóðs, þ.e. útgjöld án vaxtagjalda, verði ekki hærra hlutfall af landsframleiðslu en verið hefur á undanförnum árum.

Verulegur niðurskurður

Hvað hlutfall frumútgjalda varðar er rétt að benda á að þar er talað um að hlutfallið næstu fjögur ár verði í heildina svipað fyrri árum.

Á árunum 2006-2008 nam þetta hlutfall um 28-29%. Miðað við að gert sé ráð fyrir 11% samdrætti landsframleiðslu í ár þyrftu frumútgjöld ríkissjóðs að dragast saman um 13%, eða 56,6 milljarða, á árinu til að þetta markmið næðist. Samkvæmt fjárlögum er hins vegar gert ráð fyrir því að frumútgjöldin aukist um 7,8% eða 34 milljarða króna. Verða þau því um 38,4% af vergri landsframleiðslu í ár.

Miðað við þennan mun á áætluðum útgjöldum ríkisins á þessu ári og markmiðið um óbreytt hlutfall frumútgjalda má því ljóst vera að verulega þarf að skera niður í útgjöldum á árunum 2010-2013. Rímar það við spá Seðlabankans, sem gerir ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs verði bætt um 45 milljarða árið 2010, aðra 40 milljarða árið 2011 og um tæpa 10 milljarða árið 2012.

Ljóst má vera að til að brúa þá 150 milljarða króna gjá, sem í ár er milli tekna og gjalda ríkissjóðs, þarf að auka tekjur og draga úr gjöldum.

Svipuð skattbyrði

Í áætluninni er hins vegar lítið um áþreifanlegar yfirlýsingar um hvernig ná eigi fram þessum markmiðum. Lesa má þó úr henni að búast megi við auknum hátekju- og/eða neyslusköttum. Hins vegar er gert ráð fyrir því í yfirlýsingunni að skattbyrðin verði svipuð eða minni á tímabilinu en hún hefur verið á síðustu árum.

Þá má lesa úr henni að reynt verði að draga úr útgjöldum frekar með hagræðingu og aðhaldi en beinum flötum niðurskurði. Ekki er t.d. gert ráð fyrir uppsögnum opinberra starfsmanna. Gert er ráð fyrir því að áætlun í ríkisfjármálum verði lögð fyrir Alþingi innan 100 daga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka