Ósátt við kynjaskiptingu í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin á Bessastöðum
Ríkisstjórnin á Bessastöðum mbl.is/ÁrnI Sæberg

Stjórn Ungra vinstri grænna lýsir megnri óánægju með að ekki skuli vera jafnt hlutfall kynja í ráðherraliði nýrrar ríkisstjórnar. Stjórnin gerir þá kröfu að þegar næst verði gerðar breytingar á skipan ráðherra í ríkisstjórninni verði hlutfall kynjanna innan hennar leiðrétt. Slíkt er í samræmi við samþykktir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

„Stjórn Ungra vinstri grænna vekur athygli á að hlutfall kynjanna í þingflokkum Vinstri grænna og Samfylkingar er jafnt, að stjórnarflokkarnir sóttu fylgi sitt ekki síst til kvenna, og að það eru um það bil jafn margar konur og karlar hluti af þessari þjóð.

Það að taka þátt í ríkisstjórn þar sem að kynjahlutföll eru ójöfn og báðir flokkar skipa fleiri karla en konur ráðherra, er að svíkjast undan merkjum kvenfrelsisstefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem að felur í sér að ætíð eigi að gæta að jafnrétti kynjanna, í stöðuveitingum sem öðru.

Stjórn Ungra vinstri grænna er mjög undrandi og vonsvikin yfir því að ályktun flokksráðs sem fól í sér að formanni flokksins væri falið að tryggja jafnt kynjahlutfall innan ríkisstjórnarinnar, hafi greinilega verið hunsuð við ríkisstjórnarmyndun. Stjórnin telur þetta vekja spurningar um brot á lögum flokksins, en þar kemur fram að flokksráð er æðsta ákvörðunarvald flokksins á milli landsfunda. Að ganga framhjá bæði stefnu og ályktunum sem æðstu stofnanir flokksins hafa samþykkt er afar ólýðræðislegt og forystu flokksins til vansa.

Stjórn Ungra vinstri grænna gerir þá kröfu til forystu flokks síns að á þessu verði ráðin bragabót. Það er ljóst að aðferðir sem þessar eru einungis til þess fallnar að rýra traust kjósenda, og flokksmanna sjálfra á flokknum. Stjórn Ungra vinstri grænna harmar þessa niðurstöðu sem er aðför að feminískum og lýðræðislegum gildum þeirrar hreyfingar sem að við kusum að greiða atkvæði okkar í síðustu kosningum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka