ESB-tillagan birt

Drög að þingsályktun um aðildarumsókn hafa verið birt.
Drög að þingsályktun um aðildarumsókn hafa verið birt.

„Alþingi samþykk­ir að rík­i­s­tjórn­in leggi inn um­sókn um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og að lokn­um viðræðum við sam­bandið verði hald­in þjóðar­at­kvæðagreiðsla um vænt­an­leg­an aðild­ar­samn­ing." Þannig hljóða drög að þings­álykt­un­ar­til­lögu, sem ut­an­rík­is­ráðuneytið hef­ur nú birt á vef sín­um.

Um er að ræða til­lögu­drög­in, sem voru kynnt á fundi for­ystu­manna stjórn­mála­flokk­anna í gær og á fund­um Öss­ur­ar Skarp­héðins­son­ar, ut­an­rík­is­ráðherra, með for­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks og full­trúa þing­hóps Borg­ara­hreyf­ing­ar­inn­ar í dag.

Í grein­ar­gerð með til­lög­unni seg­ir, að til­laga um aðild­ar­um­sókn til ESB sé lögð fram til þess að ís­lenska þjóðin fái tæki­færi til að hafna eða samþykkja samn­ing um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu þegar hann ligg­ur fyr­ir.

„Um­sókn að ESB jafn­gild­ir þannig ekki aðild enda er það ís­lensku þjóðar­inn­ar að kom­ast að end­an­legri niður­stöðu hvað hana varðar. Sam­hliða verði lagt fram frum­varp til laga um þjóðar­at­kvæðagreiðslur um mik­il­væg mál sem rík­is­stjórn eða Alþingi ákveði að leggja fyr­ir þjóðina. Til­laga um um­sókn og frum­varp til laga um þjóðar­at­kvæðagreiðslur verða lögð fram sam­hliða á vorþingi.

Víðtækt sam­ráð verður haft við hags­munaaðila um samn­ings­mark­mið fyr­ir viðræðurn­ar á ýms­um sviðum, s.s. sjáv­ar­út­vegs, land­búnaðar- og byggðamála, á sviði al­mannaþjón­ustu, um­hverf­is- og jafn­rétt­is­mála og gjald­miðils­mála og leit­ast við að ná sem breiðastri sam­stöðu um umræðugrund­völl viðræðnanna. Skoðað verður hvort unnt sé að ná fram sam­starfi í gjald­miðils­mál­um sam­hliða viðræðum um hugs­an­lega aðild til að styðja við gengi krón­unn­ar. Áhersla er lögð á opið og gagn­sætt ferli og reglu­bundna upp­lýs­inga­gjöf til al­menn­ings og hags­munaaðila.

Fag­leg viðræðunefnd við ESB verður skipuð af rík­is­stjórn Íslands. Henni til fullting­is verður breiður sam­ráðshóp­ur full­trúa hags­munaaðila sem nefnd­in leit­ar ráðgjaf­ar hjá, og upp­lýs­ir jafnóðum um fram­vindu viðræðna.   Ísland sem Evr­ópuþjóð vill leggja sitt af mörk­um við upp­bygg­ingu lýðræðis­legr­ar Evr­ópu sem grund­vall­ast á fé­lags­legu rétt­læti, jafn­rétti og virðingu fyr­ir mann­gildi og um­hverfi. Hlut­verk Evr­ópu er að vera horn­steinn mann­rétt­inda í heim­in­um og ýta und­ir stöðuleika, sjálf­bær þróun, rétt­læti og vel­meg­un um all­an heim.

Stjórn­völd áskilja sér rétt til að mæla með eða leggj­ast gegn samn­ingn­um þegar hann ligg­ur fyr­ir enda eru sett­ir marg­vís­leg­ir fyr­ir­var­ar við hugs­an­leg­an stuðning við málið.

Meðal grund­vall­ar­hags­muna Íslands eru:

  • Að tryggja for­ræði þjóðar­inn­ar yfir vatns- og orku­auðlind­um og ráðstöf­un þeirra
  • Að tryggja for­ræði þjóðar­inn­ar yfir fisk­veiðiauðlind­inni, sjálf­bæra nýt­ingu auðlind­ar­inn­ar og hlut­deild í deili­stofn­um og eins víðtækt for­svar í hags­muna­gæslu í sjáv­ar­út­vegi í alþjóðasamn­ing­um og hægt er.
  • Að tryggja öfl­ug­an ís­lensk­an land­búnað á grund­velli fæðuör­ygg­is og mat­væla­ör­ygg­is 
  • Að tryggja lýðræðis­leg­an rétt til að stýra al­mannaþjón­ustu á fé­lags­leg­um for­send­um
  • Að standa vörð um rétt­indi launa­fólks og vinnu­rétt.

Alþingi meti hvort setja skuli sér­staka Evr­ópu­nefnd Alþing­is með full­trú­um allra stjórn­mála­flokka er fari með sam­skipti við viðræðunefnd vegna ESB, en viðhorf stjórn­ar­flokk­anna er að það sé heppi­legt."

 


mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert