Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, stefnir á annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar á komandi vori, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Ég leita eftir stuðningi í 2. sæti framboðslistans þar sem ég tel að
reynsla mín og kraftar muni nýtast Reykvíkingum best verði ég í forystusveit," að því er segir í tilkynningu frá Kjartani.
Kjartan hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1999. Hann er formaður Menntaráðs Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Auk þess situr hann í borgarráði, stjórnkerfisnefnd, og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Á kjörtímabilinu gegndi hann einnig störfum varaforseta borgarstjórnar um hríð, var formaður Menningar- og ferðamálaráðs og átti sæti í forsætisnefnd, skipulagsnefnd og stjórn Faxaflóahafna. Þá var hann formaður Umferðarráðs ríkisins 2007-2008.
Kjartan er 42 ára að aldri og stundaði nám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Kona hans er Guðbjörg Sigurgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau þrjú börn, tíu ára telpu, sjö ára dreng og sex mánaða stúlkubarn.