Hjálmar Sveinsson, útvarpsmaður, gefur kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Hann sækist eftir 3. sæti á listanum en prófkjör Samfylkingarinnar fer fram 30. janúar nk.
Hjálmar segist í tilkynningu munu leggja áherslu á heildarsýn í málefnum borgarinnar, ekki síst á sviði skipulagsmála. Þá vilji hann leggja sitt af mörkum til að ákvarðanir og framkvæmdir í borginni þjóni almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum verktaka og fjárfesta.
Hjálmar, sem er fæddur 1958, hefur starfað við þáttagerð í Ríkisútvarpinu og verið umsjónarmaður þáttanna Spegillinn og Krossgötur. Hann er með MA gráðu frá 1997 í heimspeki, bókmenntum og þýskum fræðum frá Freie Universität í Berlín þar sem hann var við nám og störf árin 1986 -1997.
Eiginkona Hjálmars er Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistakona og ferðaskipuleggjandi. Þau eiga þrjú börn: Borghildi 22 ára, Huldu Ragnhildi 14 ára og Vilhjálm Yngva 12 ára.
Heimasíða Hjálmars