Hermann Valsson býður sig fram í 3. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík (VGR) fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Í tilkynningu kemur fram að hann hafi verið félagi í VG frá árinu 2000 og setið í stjórn VGR meira og minna frá árinu 2006. Í stjórn VGR hefur hann meðal annars gengt starfi formanns og gjaldkera.
„Í síðustu borgarstjórnakosningum sat ég í 5. sæti á lista VG. Á kjörtímabilinu hef ég setið í stjórn íþrótta- og tómstundaráðs, leikskólaráði og menningar- og ferðaráði, ýmist sem aðal eða varamaður. Ég hef verið aðalmaður í Hverfisráði Grafaholts og er nú fulltrúi VG í stjórn útivistarsvæða Orkuveitu Reykjavíkur. Á stjórnartíma Tjarnarkvartetsins svokallaða var ég jafnframt formaður stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Frá síðustu Alþingiskosningum hef ég auk starfa sem varaborgarfulltrúi sinnt störfum fyrir borgarstjórnarflokk VG," að því er segir í tilkynningu frá Hermanni.
Hann er menntaður íþróttakennari kennir við Norðlingaskóla auk þess sem hann leggur stund á meistaranám í lýðheilsufræðum.