Gísli Tryggvason sækist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins í komandi bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi.
„Kosningar í vor fela í sér tækifæri til umbóta, bættra stjórnarhátta og heilbrigðari stjórnmála í þágu allra Kópavogsbúa – eins og ég vil gjarnan stuðla að. Um leið vil ég leggja mitt af mörkum í þeirri endurnýjun sem hafin er í Framsóknarflokknum.
Ég er fertugur og á þrjú börn á aldrinum 6-11 ára, hef embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands og MBA-próf með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Undanfarin fimm ár hef ég verið talsmaður neytenda og var áður framkvæmdarstjóri og lögmaður Bandalags háskólamanna (BHM) í sjö ár.
Ég hef búið í Kópavogi í áratug og verið virkur í félögum foreldra, skógræktarfólks og lóðarhafa. Þá hef ég um árabil starfað í Framsóknarflokknum og gegnt trúnaðarstörfum fyrir hann, nú síðast sem formaður laganefndar flokksins. Það er von mín að bakgrunnur minn geti nýst íbúum Kópavogs. Sérstaklega vænti ég þess að reynsla mín af stjórnun, félagsstarfi og ekki síst áralöng reynsla mín af réttindamálum stúdenta, launafólks og neytenda geti nýst vel í bæjarmálum – einkum á tímum þegar forgangsraða þarf til varnar grunnþjónustu og velferð heimilanna,“ segir í tilkynningu frá Gísla.