"Ég stefndi á annað sætið og ef þetta verða úrslitin þá er ljóst að ég náði ekki markmiði mínu. Menn hafa verið að óska mér til hamingju með þessa útkomu, en í hjarta mínu er ég ekki sáttur," sagði Geir Sveinsson, fyrrverandi fyrirliði landsliðs Íslands í handbolta en hann er í sjötta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Geir stefndi á annað sætið, en er í sjötta sæti miðað við fyrstu tölur. Það ætti að vera nokkuð öruggt sæti í borgarstjórn. Mjótt er á milli þeirra sem eru í þriðja sæti til sjöunda sætis. Röð efstu manna gæti því breyst þegar líður á talninguna.