Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, sækist eftir fyrsta sæti í forvali Samfylkingarinnar í Árborg sem fram fer laugardaginn 20. febrúar n.k. Ragnheiður kveðst hafa ákveðið að gefa kost á sér vegna fjölda áskorana.
Ragnheiður segir m.a. í tilkynningu sinni:
„Framundan er forval Samfylkingarinnar í Árborg vegna sveitarstjórnakosninga næsta vor. Síðast liðið haust tilkynnti ég um að ég hygðist ekki gefa kost á mér á framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnakosningar. Í ljósi fjölda áskorana og mikillar hvatningar til að endurskoða fyrri ákvörðun mína og halda áfram þátttöku í sveitarstjórnamálum hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína og reynslu til áframhaldandi starfa í þágu íbúa Árborgar.“