Okkur eru allir vegir færir

Haraldur Sverrisson leiðir lista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.
Haraldur Sverrisson leiðir lista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.

„Ég er þakklátur fyrir þessa kosningu. Niðurstaðan sýnir að ég hef góðan stuðning í bæjarfélaginu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, sem kosinn var í prófkjöri í gær í efsta sætið á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.

Haraldur sóttist einn eftir efsta sætinu en hann hefur verið oddviti listans frá því Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór á þing.

Hlaut Haraldur 83,5% atkvæða í fyrsta sætið.

Meiri barátta var um næstu sæti. Herdís Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi varð í öðru sæti, Bryndís Haraldsdóttir varabæjarfulltrúi í því þriðja og Hafsteinn Pálsson bæjarfulltrúi varð í fjórða sæti.

Hann er ánægður með þátttökuna. 826 greiddu atkvæði sem er 61% af þeim sem voru á kjörskrá. Margir gengu í flokkinn á prófkjörsdag.

„Þetta er miklu meiri þátttaka en við höfum verið að sjá í prófkjörum að undanförnu. Ég tel að hún sýni hvað þetta er breiður hópur fólks og  höfðar vel til fólks í bænum,“ segir Haraldur.

„Nú förum við að undirbúa stefnu okkar fyrir kosningar og blása í lúðra. Með þessu fólki er okkur sjálfstæðismönnum allir vegir færir,“ segir bæjarstjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert