Guðmundur Pálsson sem sigraði í prófkjöri sjálfstæðismanna í Grindavík segist hafa háð ákveðna varnarbaráttu því einhver umræða hafi verið um það í bæjarfélaginu að rétt væri að skipta allri bæjarstjórninni út. Hann segist ánægður með niðurstöðuna í því ljósi.
Róstursamir tímar hafa verið í bæjarpólitíkinni í Grindavík á kjörtímabilinu og nokkrir meirihlutar starfað. Bæjarbúar hafa lýst óánægju með þetta.
Guðmundur Pálsson ákvað að gefa kost á sér áfram en fékk mótframboð frá Magnúsi Má Jakobssyni, formanni Sjálfstæðisfélags Grindavíkur. Raddir heyrðust um að skipta bæri allri bæjarstjórninni út.
„Við kepptum báðir um fyrsta sætið. Það var barátta, eins og gerist þegar þannig er,“ segir Guðmundur. Hann kveðst sáttur við niðurstöðuna. Þá segist hann efins um að rétt sé að skipta öllum út á sama tíma. Fyrir liggi að töluverð endurnýjun verði, hjá flestum framboðum.
Þá segist hann ánægður með þátttökuna í prófkjörinu, 250 manns greiddu atkvæði sem er 65% af þeim sem eru á kjörskrá. Um 70 manns gengu í sjálfstæðisfélagið á prófkjördag.
Guðmundur segist vita að fólk krefjist þess að menn finni til ábyrgðar þegar þeir gefi kost á sér í bæjarstjórn og séu ekki í þeim hringlandahætti sem einkennt hefur kjörtímabilið sem er að ljúka. Hann vekur um leið athygli á því að sjálfstæðismenn hafi ekki staðið í meirihlutaslitum. Þeir hafi verið í fyrsta meirihlutanum en ekki slitið honum.
„Nú er þessu kjörtímabili að ljúka og við stefnum að sjálfsögðu að mynda sterkan meirihluta eftir kosningar,“ segir Guðmundur.
Guðmundur starfar sem tannlæknir í Grindavík og síðustu mánuði kjörtímabilsins gegnir hann embætti forseta bæjarráðs. „Það er vissulega nóg að gera en þetta hefst með góðri skipulagningu. Ég á heldur ekki auðvelt með að hlaupa frá sjúklingunum,“ segir Guðmundur.