Ávirðingar byggja á sögusögnum

Sóley Tómasdóttir.
Sóley Tómasdóttir. mbl.is/Kristinn

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi, sem sigraði í forvali VG í Reykjavík um helgina, segir að ávirðingar sem bornar hafi verið á hana og stuðningsfólk hennar í fjölmiðlum séu alvarlegar en að baki þeim séu eingöngu sögusagnir sem hafi manna á milli í tilfinningaþrungnu andrúmslofti á kjördegi.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi, sem lenti í 2. sæti í forvalinu, kærði framkvæmd utankjörstaðaratkvæðagreiðslu í forvalinu og vísaði til þess að stuðningsmenn Sóleyjar hefðu ítrekað boðist til að  koma með kjörseðla heim til kjósenda og skila þeim svo fyrir þá. Kjörstjórn forvalsins hafnaði hins vegar kærunni í gærkvöldi og sagði að  framkvæmd forvalsins hafi verið í samræmi við reglur þess.   

Sóley segir á bloggsíðu sinni, að kjörstjórn hafi staðfest að forvalið fór fram í samræmi við settar reglur og með sama sniði og árin 2007 og 2009.

„Þá er brýnt að upplýsa að af þeim tæplega 300 sem hringt var í heiman frá mér á kjördag voru 15 einstaklingar sem ekki áttu heimangengt og nýttu sér þá leið að fá til sín kjörseðil og láta skila honum til baka. Alls voru póstatkvæðin 84.

Þær ávirðingar sem bornar hafa verið á mig og stuðningsfólk mitt í fjölmiðlum eru alvarlegar, en að baki þeim eru eingöngu sögusagnir sem farið hafa manna á milli í tilfinningaþrungnu andrúmslofti á kjördegi. Á dögum sem þessum spretta upp alls kyns sögur, en ég sé enga ástæðu til að elta ólar við slíkt, enda ógerningur og ekki til þess fallið að styrkja stöðu framboðsins í heild sinni. (...)Fyrst og fremst vonast ég til þess, nú þegar ljóst er að framkvæmd forvalsins var ekki hefur verið farið á svig við forvalsreglurnar og niðurstöðum forvalsins verður ekki breytt, að við frambjóðendur leggjum fortíðina að baki, stillum saman strengi og horfum fram á veginn," segir Sóley.

Bloggsíða Sóleyjar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert