Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, segir úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, þar sem hann lenti í þriðja sæti, hafa komið sér á óvart. Hann hafi ekki áttað sig á að ekki væri allt með felldu í Kópavogi fyrr en á kjördag.
Hann segir mikinn óhróður og róg hafa verið í aðdraganda prófkjörsins. Þetta kemur fram í viðtali Pressunnar við Gunnar.
Gunnar, sem ekki hefur tjáð sig eftir prófkjör flokksins um helgina, segir í viðtali við Pressuna að með ólíkindum sé að enn sé ekki búið að leiða svokallað lífeyrissjóðsmál til lykta. Hann útilokar ekki sérframboð þó hann vilji ekki tjá sig um það að sinni. Pressan hefur boðað annað viðtal við Gunnar í fyrramálið.