Sjálfstæðismenn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð í bæjarstjórn Hafnarfjarðar vilja að allir flokkar í bæjarstjórn snúi bökum saman við að takast á við þá endurfjármögnun skulda sem bærinn stendur frammi fyrir á næstunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá þeim.
„Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir lögðu saman fram tillögu þar um á bæjarstjórnarfundi í gær, miðvikudaginn 24. mars, og var tillögunni vísað til frekari úrvinnslu í bæjarráði með 11 samhljóða atkvæðum. m meiri- og minnihluta. Í tillögunni felst að skipaður verði starfshópur allra flokka til að vinna að endurfjármögnun og frekari úttekt á fjárhagsstöðunni og áætlunum bæjarins.
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars:
„Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem og öðrum bæjarbúum er það ljóst að staða bæjarsjóðs er mjög viðkvæm og skuldir bæjarins miklar. Nýlegt bréf eftirlitsstofnunar með fjármálum sveitarfélaga sýnir að ekki megi mikið útaf bregða áður en nefndin grípi inní. Einnig sýna og sanna nýleg kjör við endurfjármögnun um 500 milljóna króna láns að lánakjör bæjarins eru líkleg til þess að vera allnokkuð hærri en áætlanir gera ráð fyrir og því hætta á að forsendur fjárhagsáætlunar 2010 og 3ja ára áætlunar raskist töluvert. Því viljum við bjóða fram krafta og samstarf okkar til að ná sátt um aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Endurfjármögnun á um 7,5 milljarða króna lánsafborgun er yfirvofandi í haust og er því einsýnt að ekki veitir af tímanum til að ná ásættanlegri niðurstöðu um þá endurfjármögnun sem fyrst.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna eru mjög ánægðir með undirtektir meirihlutans við tillögunni og vona að með fyrirhuguðu samstarfi náist góð niðurstaða fyrir bæjarsjóð og bæjarbúa alla," segir í fréttatilkynningu.