Jón Gnarr: „Við stefnum hærra“

Jón Gnarr fer fyrir Besta flokknum.
Jón Gnarr fer fyrir Besta flokknum. mbl.is/RAX

Jón Gnarr er ánægður með þann stuðning sem Besti flokkurinn fær í nýrri skoðanakönnun, en skv. henni myndi flokkurinn fá tvo borgarfulltrúa kjörna yrði kosið í dag. Jón segist stefna á að ná inn fjórum til fimm mönnum í komandi borgarstjórnarkosningum.

„Ég er feykilega ánægður með þetta. Við stefnum hærra en þetta. Við mundum vilja koma fjórum eða fimm inn. Það er stefnan hjá okkur,“ segir Jón í samtali við mbl.is. 

Í nýrri könnun Fréttablaðsins nýtur Besti flokkurinn 12,7% stuðnings og fengi tvo menn kjörna, sem fyrr segir. Aðspurður segir Jón að þetta hafi komið skemmtilega á óvart. „En ég bjóst samt alveg við þessu. Í könnun sem Gallup gerði, þá fengum við 3%. Mér var sagt, af fólki sem pælir í svona, að það væri algjört einsdæmi. Að svona flokkur fengi 3% í fyrstu könnun.“

Óánægja með stöðu lýðræðisins

Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að góður árangur Besta flokksins sé lýsandi fyrir þá óánægju sem ríki með stöðu lýðræðisins í samfélaginu. Þá eigi flokkar eins og Besti flokkurinn, sem er yfirlýst grínframboð, meira upp á pallborðið. „Yfirlýst grínframboð eru ekkert annað en ein birtingarmynd af óánægjuframboði. Það er óánægja með stöðu lýðræðisins og því stekkur fólk á þennan kost,“segir Hulda.

Hulda bendir jafnframt á að kosningabaráttan sé ekki hafin fyrir alvöru. Fólk sé því meira tilbúið að svara könnunum án ábyrgðar en það myndi gera gera ef styttra væri í kosningar. Hún bendir einnig á að Framsóknarflokkurinn komi alltaf illa út úr skoðanakönnunum í Reykjavík. Í könnun Fréttablaðsins fær flokkurinn t.d. engan borgarfulltrúa. „Síðan ná þeir alltaf inn manni,“ segir Hulda og bætir við að ekki sé hægt að draga miklar ályktarnir eins og er.

Ætla að opna kosningaskrifstofu 

Spurður út í hvað sé framundan hjá Besta flokknum, segir Jón að stefnt sé að því að opna kosningaskrifstofu. Það kosti hins vegar peninga sem flokkurinn hafi ekki á milli handanna. Því hafi verið leitað eftir fjárframlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. „Við eigum enga peninga. Það hefur ekkert fyrirtæki viljað styðja okkur. Þannig að næsta skref er að leita eftir fjárframlögum frá stjórnmálaflokkum,“ segir Jón.

Aðspurður vonast Jón til þess að þessi góði stuðningur muni verða til þess að fleiri muni styrkja flokkinn. „Við erum búin að fá 5.000 kall á reikninginn. Maður gerir ekkert mikið fyrir það,“ segir hann.

„Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur sýnt áhuga á samstarfi við okkur út af ísbirninum sem við viljum fá í húsdýragarðinn, og nota það til að kynna Polar Beer í leiðinni,“ segir Jón. Það að fá ísbjörn í garðinn sé eitt af helstu baráttumálum flokksins.

Heimasíða Besta flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert