„Mörg hundruð störf í húfi"

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík mbl.is/Ómar Óskarsson

Mörg hundruð störf geta verið í húfi í nýrri einkavæðingarbylgju Sjálfstæðisflokksins í Ráðhúsi Reykjavíkur fái hann að ráða. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík á fundi flokksstjórnar.

„Það vill nefnilega gleymast að tekist hefur að slá helstu einkavæðingardraumum Sjálfstæðisflokksins í Ráðhúsinu í frestun með harðri stjórnarandstöðu. En hvað gerist eftir kosningar? Margir gera sér ekki ljóst hversu víða Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn - síðasta vígi frjálshyggjunnar á Íslandi - hefur undirbúið einkavæðingu á grunnþjónustunni, segir Dagur.

Einhverjum finnst sjálfsagt fyndin tilhugsun að flokkurinn hafi verið á fullu fyrir hrun í viðræðum við að afhenda Kaupþingi og Glitni leikskóla með stofnun „yrirtækjaleikskóla". Það hefur þó ekki formlega verið slegið af - heldur er í frestun, segir Dagur.

Sömuleiðis er einkavæðing allrar sorphirðu. Það er í frestun. Við meirihlutaskiptin 2007 kom í ljós að formaður velferðarráðs hafði verið í leynilegum viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um einkavæðingu heimaþjónustu, heimahlynningar og heimahjúkrunar. Ætli hún sé ekki líka í frestun, velti Dagur fyrir sér í ræðu sinni á fundinum í dag.

Í byrjun þessa árs kom jafnframt fram skýrsla um einkavæðingu Strætó bs. Og hver voru viðbrögð borgarstjóra: „Ekkert verður ákveðið í þessu efni fyrr en eftir kosningar. Þá má líka nefna að varla hefur hópur fólks mátt eiga leið fram hjá menntasviði Reykjavíkurborgar án þess að vera boðið að stofna einkaskóla - jafnvel þótt fækkun barna og allt of mikið húsnæði sé verulegt vandamál. Allt þetta hefur verið í gangi á þessu kjörtímabili án þess að hafa verið kynnt fyrir síðustu kosningar, enda fer Sjálfstæðisflokkurinn þá iðulega í bleiku fötin. En ef hann fær að ráða - tekur frjálshyggjan við," segir Dagur .

Og er þó ótalið versta dæmið, að sögn oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn.

REI-málið þar sem sex-menningarnir svonefndu undir forystu núverandi borgarstjóra ætlaði að hrað-selja REI með einkarétti að tækifærum og þekkingu Orkuveitu Reykjavíkur til 20 ára og forkaupsrétti Hannesar Smárasonar og FL-group á hlutnum. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir það með myndun nýs meirihluta sem vatt ofan af ruglinu, segir Dagur B Eggertsson.

 

Fjölmenni var á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar í dag
Fjölmenni var á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar í dag mbl.is/Ómar Óskarsson
Margrét S. Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og Jóhanna Sigurðardóttir, formaður …
Margrét S. Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert