Besti flokkurinn fengi 14% og tvo menn

Jón Gnarr við Tjörnina.
Jón Gnarr við Tjörnina. mbl.is/Rax

Besti flokkur Jóns Gnarr og félaga mælist með 14% fylgi í Reykjavík samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Annars mælast litlar breytingar á fylgi flokkanna, samkvæmt frétt RÚV.

Ef kosið væri í borgarstjórn nú fengi Besti flokkurinn tvo menn kjörna, þá Jón Gnarr og Einar Örn Benediktsson. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 35%, Samfylkingin 30%, Vinstri grænir 13% og Framsóknarflokkurinn 5%. Haft var eftir Jóni Gnarr á RÚV að honum litist vel á niðurstöður könnunarinnar, nú þyrfti að halda fund í miðstjórn og sellufundi, eins og það var orðað.

Litlar breytingar á landsvísu

Í Þjóðarpúlsi Gallup eru einnig birtar niðurstöður könnunar á fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu, og litlar breytingar eru sagðar hafa orðið frá síðustu könnun fyrir mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á landsvísu, eða 33%, stjórnarflokkarnir mælast með álíka mikið fylgi, eða tæp 24%. Tapa Vinstri grænir tveimur prósentustigum á milli mánaða en Samfylkingin bætir við sig einu prósentustigi. Framsóknarflokkurinn fengi 14% atkvæða ef kosið yrði til Alþingis nú, samkvæmt frétt RÚV.

Ríflega 11% svarenda í könnun Gallup taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp, tæp 13% segjast ætla að skila auðu eða kjósa ekki, ef þingkosningar færu fram í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert