Samfylkingin í Kópavogi kynnti í dag áætlun um aðgerðir í húsnæðis- og atvinnumálum bæjarins sem flokkurinn nefnir Nýja Kópavogsbrú.
Fram kom á blaðamannafundi, sem flokkurinn hélt í dag, að í Kópavogi væri nú nokkuð af hálfkláruðu húsnæði þar sem framkvæmdir hafa stöðvast. Eigendur hafi sumir hverjir lent í kröggum og geti ekki lokið byggingu þeirra. Ný Kópavogsbrú snúist um að Kópavogur leggi til fjármagn til að ljúka við byggingu þessa húsnæðis og brúi bilið tímabundið, í þeim tilgangi að skapa atvinnu og tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir íbúa.
Samfylkingin vill að Íbúðalánasjóði, bönkunum, húsnæðissamvinnufélögum og byggingaraðilum verði boðið til samstarfs og að þeir geti jafnvel lagt sínar eigin eignir inn í verkefnið. Aðkoma Kópavogsbæjar felist í að útvega fjármagn á hagstæðum kjörum og stefnumótun um aðgang bæjarbúa að hinum nýju búsetukostum.
Íbúðirnar verði boðnar til leigu, kaupleigu eða sölu á almennum markaði á næstu misserum. Fram kom á blaðamannafundinum að útreikningar sérfræðinga, sem leitað hafi verið til, geri ráð fyrir að verkefnið standi undir sér. Þá sé vonast eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar við verkefnið.