Guðmundur Ingi sigraði í Rangárþingi ytra

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson Þorvaldur Örn Kristmundsson

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sem verið hefur sveitarstjóri í Grundarfirði, er sigurvegari prófkjörs sjálfstæðismanna í Rangárþingi ytra sem fram fór í dag vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor. Guðmundur Ingi fékk 202 atkvæði í 1. sætið og Þorgils Torfi Jónsson, núverandi oddviti hreppsnefndar, fékk 152 atkvæði í 1.-2. sæti.

Guðmundur er kominn á fornar slóðir, en áður en hann gerðist sveitarstjóri í Grundarfirði, var hann sveitarstjóri á Hellu til nokkurra ára. Þetta er síðasta prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Við lok kjörfundar í Rangárþingi ytra voru 512 á kjörskrá og 396 manns kusu sem þýðir 77% kjörsókn. Tíu manns gáfu kost á sér. 14 atkvæði voru auð eða ógild. Gild atkvæði voru 382.

Röð efstu sjö manna var sem hér segir:

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson með 202 atkvæði í 1. sæti (52,9%)
Þorgils Torfi Jónsson með 152 atkvæði í 1.-2. sæti (39,8%)
Anna María Kristjánsdóttir með 213 atkvæði í 1.-3. sæti (55,8%)
Ingvar Pétur Guðbjörnsson með 204 atkvæði í 1.-4. sæti (53,4%)
Katrín Sigurðardóttir með 206 atkvæði í 1.-5. sæti (53,9%)
Sigríður Th. Kristinsdóttir með 246 atkvæði í 1.-6. sæti (64,4%)
Ómar Diðriksson með 279 atkvæði í 1.-7. sæti (73,0%)


Aðrir frambjóðendur fengu færri atkvæði, meðal þeirra var Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi í Þykkvabæ, sem sóttist eftir 2. sætinu, en hann hefur átt sæti í sveitarstjórninni á yfirstandandi kjörtímabili. Anna María er ný á lista sjálfstæðismanna en Ingvar Pétur Guðbjörnsson hefur setið í sveitarstjórn. Munaði fáum atkvæðum að hann næði öðru sætinu af Þorgils Torfa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert