Helga Þórðardóttir kennari skipar fyrsta sætið á framboðslista Frjálslynda flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Annað sætið skipar Haraldur Baldursson tæknifræðingur.
Helga Þórðardóttir kynnti áherslupunkta Frjálslynda flokksins í Reykjavík á fundi flokksins í gær. Hún segir skattabyrði þegar það mikila að ekki verði meira lagt á borgarbúa. Frjálslyndi flokkurinn vill því forgangsraða og tryggja að Reykjavíkurborg sé í stakk búin að mæta þeim velferðarþörfum sem til staðar eru og eru líklegar til að aukast. Vill flokkurinn fríar skólamáltíðir og bættar almenningssamgöngur með því að ekki þurfi að borga í strætó.
Haraldur Baldursson fór sérstaklega yfir áherslur Frjálslyndra í atvinnumálum sem hann segir vera velferðarmál. Haraldur lagði ríka áherslu á að Reykjavíkurborg getur lagt atvinnulífinu lið á margvíslegan máta, t.d. með því að stofna atvinnusetur. Með hjálp fyritækja borgarinnar, eins og Orkuveitunnar megi aðstoða ný fyrirtæki með aðgengi að ódýru rafmagni, hita, vatni og netaðgengi.