Meirihlutinn fallinn í borginni

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri

Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm borgarfulltrúa kjörna í sveitarstjórnarkosningunum í lok maí samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Besti flokkurinn fær fjóra borgarfulltrúa og Samfylkingin fengi jafn marga borgarfulltrúa. Vinstri grænir fengju tvo borgarfulltrúa en hvorki Framsóknarflokkurinn né framboð Ólafs F. Magnússonar kæmi manni inn í borgarstjórn.

Fyrr í kvöld birti RÚV frétt um niðurstöðu Þjóðarpúls Gallup. Samkvæmt Gallup fengi Sjálfstæðisflokkurinn fjóra borgarfulltrúa en Samfylking fimm. Hins vegar mælist fylgi Besta flokksins svipað í báðum könnunum og fær framboðið fjóra borgarfulltrúa kjörna. 

Besti flokkurinn er nú með 23,4 prósent samkvæmt könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn tapar 9,4 prósentustigum frá síðustu könnun og mælist nú með 30%. Vinstri grænir bæta við sig töluverðu fylgi frá síðustu könnun og eru nú með 17% atkvæða og tvo borgarfulltrúa kjörna.

Samfylkingin heldur sínum fjórum borgarfulltrúum en tapar rúmum þremur prósentustigum og er nú með 22,8 prósent, samkvæmt frétt á Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert