Svarti listinn, nýr framboðslisti í Borgarbyggð, segja óvíða á Íslandi stöðuna verri en í sveitarfélaginu þegar kemur að stjórnsýslu. Boðað hefur verið til íbúafundar næstkomandi fimmtudag til að móta stefnu listans. Hann mun þó ekki miðast við pólitískar flokkslínur stjórnmálaflokka, að því segir í tilkynningu.
Svarti listinn er þver- eða ópólitískt framtak og neita meðlimir hans að horfa upp á sömu einstaklinga komast til valda enn eina ferðina. „Ástandið er slæmt og efnahagshruni verður ekki eingöngu kennt um. Óskynsamlegar ákvarðanir fráfarandi sveitarstjórnar, þeirra sömu aðila og sækjast nú eftir endurnýjuðu umboði kjósenda, vega hvað þyngst þegar ástæður hruns Borgarbyggðar eru raktar. Nú er kominn tími til að segja stopp,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum. Fundurinn verður haldinn á B57 í Borgarnesi.
Framboð Svarta listans er það fimmta í sveitarfélaginu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí næstkomandi. Fyrir hafa listar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs verið kynntir.