Álftanes óskar eftir sameiningarviðræðum við Reykjavík

Sundlaugin á Álftanesi.
Sundlaugin á Álftanesi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Samfylkingin í borgarstjórn vill ræða sameiningu og aukna samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram í bókun Samfylkingarinnar á fundi borgarráðs í dag. Á fundinum var lagt fram erindi bæjarstjórnarinnar á Álftanesi þar sem farið var fram á viðræður við Reykjavík um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Sú beiðni byggir á niðurstöðum almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa Álftaness, að því er segir í frétt frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Borgarráð frestaði að taka afstöðu til beiðni Álftaness þar til væntanlegar borgarstjórnarkosningar hafi farið fram. Samkvæmt því verður sameining og aukin samvinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eitt af kosningamálum vorsins.

„Stefna Samfylkingarinnar í Reykjavík í því efni er skýr, auk viðræðna um sameiningu og aukna samvinnu sveitarfélaga vill Samfylkingin sterkara svæðisskipulag sem nái til alls Suð-Vesturhorns landsins," segir Dagur.

Bætt við klukkan 15:35

Framsóknarflokkurinn hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að flokkurinn styðji sameiningu Reykjavíkur og Álftaness. Vísað er í pistil Einars Skúlasonar á Pressunni þar að lútandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert