Öruggur leigu- og kaupleigumarkaður, fjölbreytt atvinnusköpun á vegum borgarinnar, strætó sem grunnþjónusta og sorpflokkun við heimili fólks eru meðal þeirra málefna sem Vinstrihreyfingin grænt framboð setur á oddinn fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Stefnumál flokksins voru kynnt á blaðamannafundi í kosningamiðstöð hreyfingarinnar við Suðurgötuna fyrr í dag.
Að sögn Sóleyjar Tómasdóttur, oddvita framboðsins, snúast kosningarnar í vor fyrst og fremst um hugmyndafræði. „Sagt hefur verið að þetta sé ekki kosningabarátta hinna stóru kosningaloforða. Það er ekki rétt.
Við núverandi aðstæður er það gríðarlega stórt loforð að ætla að tryggja velferð og grunnþjónustu hjá borginni, að ég tali nú ekki um fleiri húsnæðisúrræði og fjölbreytta atvinnusköpun á hennar vegum. Þetta er það sem við treystum okkur til að lofa,og það með félagslegt réttlæti að leiðarljósi,“ segir Sóley.