Hlutfall kvenna í framboði til sveitarstjórna nemur 47 prósentum af fjölda frambjóðenda í kjöri fyrir komandi kosningar og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Af 2846 einstaklingum á framboðslistum er 1331 kona og 1515 karlar.
Hlutfall kvenna sem gefa kost á sér í sveitarstjórnir hefur farið stighækkandi frá því í kosningunum 1998 en þá voru 38 prósent einstaklinga á framboðslistum konur.
Árið 2002 voru konur 41 prósent frambjóðenda og árið 2006 voru 44 prósent frambjóðenda konur, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og dómsmálaráðuneytinu. Í síðustu kosningum voru 529 einstaklingar kjörnir í sveitarstjórnir, þar af 190 konur, sem þýðir að tæp 36 prósent kjörinna sveitarstjórnarmanna í landinu eru konur.