Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík leggur megináherslu á að standa vörð um grunnþjónustuna í borginni og forgangsraða í þágu fjölskyldna fyrir komandi kosningar. Frambjóðendur flokksins kynntu stefnuskrá sína í Hljómskálanum í dag.
Í tilkynningu frá flokknum segir að „skattar verði ekki hækkaðir í Reykjavík og gjöld fyrir grunnþjónustu verði áfram með þeim lægstu á landinu. Þá eigi að skapa aukin tækifæri til atvinnusóknar áframhaldandi framkvæmdum og átaksverkefnum og bættri þjónustu borgarinnar við fyrirtæki og frumkvöðla.“
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sagði á kynningarfundinum í dag að borgarbúar verði að geta treyst því að Reykjavíkurborg standi með þeim. „Við höfum sýnt að það er hægt að standa vörð um grunnþjónustu Reykjavíkurborgar án þess að hækka skatta og án þess að stefna borgarsjóði í hættu. Við verðum að nýta krafta allra og vinna saman fyrir Reykvíkinga,“ segir Hanna Birna.