Besti flokkurinn er orðinn stærsti stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík, ef marka má nýja könnun á fylgi flokkanna. Framboðið fengi sex menn í borgarstjórn ef kosið yrði í dag. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Skv. skoðanakönnun MMR, sem gerð var fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu viku, nýtur Besti flokkurinn stuðnings tæplega 36% kjósenda í Reykjavík. Það myndi skila flokknum sex borgarfulltrúum.
Sjálfstæðiflokkurinn er með tæp 31% og fimm menn. Samfylkingin tæplega 18% og þrjá menn. Vinstri grænir með rúmlega 11% og með einn mann í borgarstjórn.
Einnig könnuðu Sjálfstæðismenn afstöðu fólks til þess hversu vel eða illa það teldi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hafa staðið sig í starfi borgarstjóra. 70,5% aðspurðra telja Hönnu Birnu hafi staðið sig frekar vel eða mjög vel í starfi borgarstjóra.