Framsókn sér ekki ástæðu til skattahækkana

Einar Skúlason oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík ræðir við fjölmiðlamenn við …
Einar Skúlason oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík ræðir við fjölmiðlamenn við Elliðaár í dag.

Framsóknarmenn í Reykjavík sjá ekki ástæðu til skattahækkana eða gjaldskrárhækkana umfram verðlagsþróun, að því er fram kemur í tilkynningu. Áfram verði haldið á sömu braut með aðhaldsaðgerðir í rekstri borgarinnar og forgangsraðað í þágu barna og velferðar.

„Fólk í borginni á mjög erfitt með að láta endum ná saman. Reykjavíkurborg þarf því að reyna eftir megni að hækka ekki álögur. Þess vegna munu þessar kosningar skipta miklu máli fyrir fólkið í borginni. Það er bara á fjögurra ára fresti og það verður ekki kosið eftirá," sagði Einar Skúlason á kynningarfundi framsóknarmanna í Elliðaárdal í dag.

Í atvinnumálum hyggst Framsóknarflokkurinn í Reykajvík leggja áherslu á mannaflsfrekar viðhaldsframkvæmdir, fegrun hverfa og ferðamannaborgina Reykjavík. Hrinda á af stað atvinnuskapandi verkefnum fyrir mismunandi aldurshópa.

Lögð verði áhersla á að klára þær framkvæmdir sem eru í gangi og ramsóknarmenn vilja ekki skerða grunnþjónustu í leikskólum og skólum. Þá vilja framsóknarmenn ókeypis hafragraut og lýsi í alla skóla. Áfram á að tryggja gæði menntunar fyrir börnin í borginni.

Frístundakortið á að hækka í 40.000 kr. á kjörtímabilinu og lögð verði áhersla á samþættingu frístunda og skóla með það að markmiði að minnka skutl foreldra.

Að lokum vilja framsóknarmenn að 5% undirskrifta íbúa á öllum aldri nægi til að koma málum á dagskrá borgarstjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert