Síðasti bæjarstjórnarfundurinn í Reykjanesbæ á þessu kjörtímabili
verður haldinn í dag í Bíósal Duushúsa. Um tímamótafund er að ræða þar
sem margir þeirra bæjarfulltrúa sem nú sitja munu nú hverfa úr
bæjarstjórn og nýtt fólk taka við eftir sveitarstjórnarkosningarnar í
lok þessa mánaðar, að því er fram kemur á fréttavefnum Víkurfréttum.
Í fréttinni segir að aðeins tveir af núverandi bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks haldi áfram að loknum kosningum í lok maí, þeir Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson. Guðbrandur Einarsson, oddviti A - lista og Samfylkingarinnar situr sinn síðasta fund og Björk Guðjónsdóttir Sjálfstæðisflokki einnig.
Kosningabandalagi A-listans lýkur þar með en flokkarnir sem það mynduðu munu bjóða fram undir eigin merkjum.
Fjórir framboðslistar voru lagðir fram í Reykjanesbæ fyrir komandi kosningar, B listi Framsóknarflokks, S listi Samfylkingarinnar, D listi Sjálfstæðisflokks og V listi Vinstri grænna
Fundir bæjarstjórnar hefjast kl. 17 í Bíósal Duushúsa og eru opnir almenningi.