Í Kjósarhreppi eru þrír listar í framboði til sveitarstjórnarkosninga, Á – Listinn, K – Kröftugir Kjósarmenn og Z – Listi framfarasinna. Í sveitarfélaginu eru 159 manns á kjörskrá og af þeim eru 25 í framboði eða um sjötti hver kjósandi í hreppnum.
Fimm fulltrúar verða kjörnir í hreppsnefnd í Kjósarhreppi í kosningunum 29. maí næstkomandi. Kosningavefur mbl.is sló á þráðinn til oddvita listanna þriggja í Kjósinni sem voru sammála um að ekki væri mikill munur á stefnumálum flokkanna.
„Áframhaldandi uppbygging í Kjósinni er á oddinum. En þetta snýst nú frekar um persónur en ágreining um stefnumál. Það var mikill vilji fyrir því að hafa persónukjör en um það náðist nú ekki samstaða,“ segir Sigurbjörn Hjaltason á Kiðafelli sem er oddviti Framfaralistans.
Í svipaðan streng tekur Guðmundur Davíðsson bóndi í Miðdal sem fer fyrir K – listanum. „Þetta snýst meira um menn heldur en málefni. Mestu skiptir að það verði áfram gott að búa í Kjósinni og hægt að standa vörð um þá þjónustu sem fyrir er, stuðla að ábyrgri fjármálastjórn og eiga gott samstarf við nágrannasveitarfélögin.“
Oddviti Á – listans, Þórarinn Jónsson bóndi á Hálsi, segir gott fólk vera á öllum listum sem boðnir eru fram í hreppnum. Hann er hins vegar ekki sammála því að persónukjör sé vænlegra þótt sveitarfélagið sé fámennt. „Það var mikil umræða um að vera með óbundna kosningu, en ég tel miklu málefnalegra að vera með lista sem kynna sína stefnu fyrir öllum kjósendum. Þegar óbundin kosning er þá vita kjósendur oft lítið um stefnumál einstaklinganna sem veljast í hreppsnefnd.„
Oddvitarnir segja að meðal hitamála í hreppnum sé stofnun hitaveitu. Þá skipti miklu að haldið sé áfram góðu samstarfi um velferðarmál við nágrannasveitarfélög eins og Mosfellsbæ og Reykjavík.