Þrír af hverjum fjórum oddvitum framboðslista til sveitarstjórnarkosninga eru karlar. Karlar eru í efsta sæti á 139 listum af 185 en konur verma toppsætið á 46 framboðslistum. Hlutföllin breytast þegar neðar dregur en 62 prósent þeirra sem eru í öðru sæti eru konur.
Í sveitarstjórnarkosningunum 2006 voru konur í efsta sæti á 38 framboðslistum en karlar efstir á 134 af þeim 172 listum sem þá voru í framboði.
Ef skoðað er hlutfall kvenna og karla í fimm efstu sætunum þá sést að karlar skipa 55 prósent efstu sæta en konur 45 prósent. Sömu hlutföll voru 58 prósent karlar og 42 prósent konur í kosningunum 2006.
Í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að hlutfall kvenna sem kjörnar eru í sveitarstjórnir hafi farið hækkandi síðustu áratugi. Að loknum kosningum 1982 hafi 12,4 prósent kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnir verið konur en sama hlutfall hafi verið 36 prósent að loknum síðustu kosningum.
Frétt Sambands íslenskra sveitarfélaga