L-listinn stærstur á Akureyri samkvæmt könnun

Horft út Eyjafjörðinn með Akureyri í forgrunni.
Horft út Eyjafjörðinn með Akureyri í forgrunni. www.mats.is

L-listinn, listi fólksins, er orðinn stærsta framboðið á Akureyri, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Vikudag og birt var í kvöld.  Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórninni er kolfallinn samkvæmt könnuninni. 

L-listinn fær 24,4% atkvæða samkvæmt könnunninni og þrjá bæjarfulltrúa, bætir við sig rúmum 14% frá kosningunum 2006 og tveimur bæjarfulltrúum.  

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15,8% fylgi, fær tvo bæjarfulltrúa og missir tvo en flokkurinn fékk um 31% atkvæða í síðustu kosningum. Samfylkingin fær 13,4%, missir tvo bæjarfulltrúa og fær einn bæjarfulltrúa nú, samkvæmt könnuninni. Samfylkingin fékk 23% í kosningunum 2006.

Vinstri grænir bæta við sig rúmu einu prósenti í könnuninni nú, miðað við síðustu kosningar, fá 17,4% og heldur flokkurinn sínum tveimur bæjarfulltrúum. Framsóknarflokkurinn bætir við sig tæplega tveimur prósentum, fær 16,8% samkvæmt könnuninni og tvo bæjarfulltrúa, bætir við sig einum. Bæjarlistinn, nýtt framboð á Akureyri, fær 12,3% samkvæmt könnuninni og einn bæjarfulltrúa.

Ekki kemur fram á vef blaðsins hve stórt úrtakið í könnuninni var eða hver skekkjumörkin eru. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert