Vopnlausir stjórnmálaflokkar

Stefanía Óskarsdóttir rekur mikið fylgi Besta flokksins til megnrar óánægju …
Stefanía Óskarsdóttir rekur mikið fylgi Besta flokksins til megnrar óánægju margra kjósenda með flokkana. mbl.is/Golli

Staða stjórnmálaflokkanna er svo slæm að jafnvel margir stuðningsmenn þeirra eiga í erfiðleikum með að halda uppi merkjum þeirra, svo rúnir trausti eru flokkarnir eftir hrunið. Þetta er mat Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings sem telur óþol gagnvart flokkum rótina að vinsældum Besta flokksins.

„Fylgifiskur lýðræðisins eru stjórnmálaflokkar en þeir þurfa auðvitað að starfa þannig að fólk treysti því sem þar fer fram. Fyrir utan að fólk líti svo á að stjórnmálakerfið sé ógeðslegt og spillt - og byggir það á heimildum eins og Styrmi [Gunnarssyni] - er fólk líka að segja að það sé orðið þreytt á þessum og hinum, að sama fólkið hafi valist aftur á listana. Þetta er orðið svo mikið óþol sem einkennist af grunsemdum um spillingu og vangetu. Það eru flestir sammála um að það eru ekki allir í framboði sem ættu að vera í framboði.“

- En kemur ekki berlega í ljós í fylgisaukningu Besta flokksins að almenningur telur að flokkarnir hafi ekki stokkað nógu mikið upp hjá sér eftir hrunið?

„Jú. Það er mín upplifun. Fólki finnst þetta kerfi hafa farið í vörn fyrir sjálft sig. Í staðinn fyrir að viðurkenna á einlæglegan hátt að það hafi kannski ekki verið á réttri leið að þá fór kerfið í ákveðna vörn. Og fólk er að bregðast við því.“

Hefði meiri auðmýkt breytt stöðunni?

- Svo við tökum dæmi þá leið langur tími þar til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir báðust afsökunar á þætti þeirra í hruninu, auk þess sem Halldór Ásgrímsson þótti ekki ganga fram af eftirsjá vegna meints þáttar hans í hruninu í nýlegu Kastljósviðtali. Telurðu að ef stjórnmálamenn hefðu gengið fram af meiri auðmýkt að andrúmsloftið væri hugsanlega öðruvísi?

Stefanía hugsar sig þá um og kveðst svo hallast að því að svarið sé já. Hún rifjar svo upp að fjöldi þingmanna hafi strax farið í skotlínuna vegna hrunsins. Sumir hafi dregið sig í hlé en aðrir sitji áfram og njóti stuðnings vina sem telji illa að þeim vegið. Hún víkur svo að málefnastöðu flokkanna.

Geta ekki varið stefnuna

„Það er svo óþægilegt fyrir stuðningsmenn flokka að geta ekki varið stefnuna, að geta ekki eytt sínu púðri í að verja stefnuna og tala upp frambjóðendur. Í staðinn þurfa þeir að afsaka það sem gerðist í fortíðinni og bera í bætiflóka fyrir fólk sem víkur ekki til hliðar.

Í Bretlandi og víða annars staðar er miklu meiri hefð fyrir því að fólk víki af sviðinu um leið og það koma upp smávægilegar efasemdir um heiðarleika eða hvað það er. Það er gert vegna þess að menn þekkja að það er miklu vænlegra til árangurs fyrir heildina til að halda áfram að þurfa ekki að vera fastur í sporinu og afsaka einhverja tiltekna einstaklinga.

Hérna hjá okkur er þjóðfélagið svo lítið að einstaklingarnir verða svo fyrirferðamiklir,“ segir Stefanía og bendir á að mál Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, formanns bæjarstjórnar á Akureyri og oddvita sjálfstæðismanna þar í bæ, hafi orðið til að styrkja í sessi þá útbreiddu skoðun að stjórnmálamenn ætluðu ekki að læra af reynslunni.

Hin fleygu orð

Ummælin sem Stefanía hefur eftir Styrmi Gunnarsson, fv. ritstjóra Morgunblaðsins, eru inngangsorðin í nýrri bók hans, Hrunadans og horfið fé, en orðrétt sagði ritstjórinn í sínum fleygu orðum:

„Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. mbl.is
Styrmir ræðir stöðu flokkanna í sunnudagsmogganum.
Styrmir ræðir stöðu flokkanna í sunnudagsmogganum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka