Samfylkingin með mest fylgi í Hafnarfirði

Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Golli

Samfylkingin mældist með 46,1% fylgi í Hafnarfirði ef marka má könnun sem flokkurinn gerði í bæjarfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 33,6%, Vinstri Grænir fá 17,9% og Framsóknarflokkurinn 2,4% ef miðað er við þá sem tóku afstöðu. Ef þetta yrði niðurstaða kosninganna þá fengi Samfylkingin fimm bæjarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn fjóra fulltrúa og VG tvo fulltrúa.

Aðspurðir um oddvita stjórnmálaflokkanna í Hafnarfirði segjast 68% bæjarbúa vilja Lúðvík Geirsson áfram sem bæjarstjóra Hafnarfjarðar, samkvæmt fréttatilkynningu frá Samfylkingunni. Hann er í sjötta sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og nær því ekki kjöri í bæjarstjórn en samkvæmt könnuninni er meirihlutinn fallinn í Hafnarfirði en nú er Samfylkingin með sex af ellefu bæjarfulltrúum.

69% bæjarbúa vilja fresta því að greiða niður skuldir við núverandi aðstæður, frekar en að skera niður í velferðarþjónustu.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði könnuna fyrir Samfylkinguna dagana 3.-12. maí 2010. Svarendur gátu valið hvern af oddvitum flokkanna sem bjóða fram í Hafnarfirði þeir vilja að gegni bæjarstjóraembættinu á næsta kjörtímabili. Ríflega 68% Hafnfirðinga vilja Lúðvík Geirsson (S) áfram sem bæjarstjóra. Um 17% nefndu Valdimar Svavarsson (D), 9% Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur (VG) og 1% Valdimar Sigurjónsson (B). Um 5% svarenda nefndi einhvern annan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert